Gagnagrunnur dóma- og sáttabóka rekur upphaf sitt til ársins 2007 þegar hafist var handa við að efnisskrá dóma- og þingbækur sýslumanna. Skipan gagnagrunnsins mótaðist fyrstu árin. Í fyrstu kallaðist hann dómabókagrunnur sýslumanna en skráning dómabóka hefur jafnan farið fram samhliða gagnaöflun Þjóðskjalasafns vegna þjóðlendumála. Árið 2019 hóf Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra að efnisskrá sáttabækur sem varðveittar eru á opinberum skjalasöfnum víðs vegar um landið. Í samstarfi við Þjóðskjalasafn var efnisskráning sáttabóka færð inn í áðurnefndan dómabókagrunn og kallast hann nú gagnagrunnur dóma- og sáttabóka. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga tók einnig þátt í verkefninu með stafrænni afritun.
Í grunninn hefur efni verið skráð úr 717 dóma- og þingbókum sýslumanna og 236 sáttabókum.
Sáttabækur
Sáttanefndir voru settar á fót í danska konungsríkinu á árunum 1795‒1798, þar með talið á Íslandi. Hlutverk sáttanefnda var að miðla málum og leita sátta í svokölluðum einkaréttarmálum og létta þannig undir með störfum héraðsdómara. Um leið var þeim ætlað að auðvelda fátækum almenningi að sækja rétt sinn án þess að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur fyrir dómstólum. Sáttanefndir áttu þannig að stuðla að friði og samlyndi meðal þegna konungs.
Konungleg tilskipun um stofnun sáttanefnda í Danmörku og í þéttbýli í Noregi var gefin út hinn 10. júlí 1795 og eftir álitsgerðir íslenskra embættismanna um tilhögun þeirra var í ágúst 1798 fyrirskipað að á Íslandi skyldi fylgja ákvæðum tilskipunar um störf sáttanefnda í dreifbýli í Noregi.
Þar er kveðið á um að öll einkaréttarmál (með nokkrum undantekningum þó) skuli taka fyrir hjá sáttanefnd til úrlausnar áður en leitað sé til dómstóla. Til einkaréttarmála töldust meðal annars mál er vörðuðu skuldir, meiðyrði, samningsrof, kjaramál og landamerkjadeilur. Mönnum var þó ekki skylt að leita til sáttanefnda frekar en þeir vildu og sáttanefndir máttu ekki hefja mál af sjálfsdáðum. Sáttanefndir höfðu ekki dómsvald heldur skyldu þær miðla málum milli ósáttra málsparta og skrá skriflega sættargerð ef sáttum var náð og skyldi sú sátt hafa ígildi dómsúrskurðar.
Þessar nefndir voru starfræktar hér á landi án stórtækra breytinga til ársins 1936, þegar samin voru ný lög um meðferð einkaréttarmála. Mikið dró úr störfum sáttanefnda í kjölfarið. Þær voru svo endanlega lagðar af með lagabreytingu árið 1981 en höfðu þá verið lítið starfandi um langt skeið.
Á árunum 1798–1936 voru að lágmarki 150 sáttanefndir starfræktar hér á landi og eru gjörðabækur þeirra skráðar í gagnagrunn dóma- og sáttabóka. Samtals eru bækurnar sem skráðar eru í grunninn 236 talsins. Þær eru varðveittar á 14 opinberum skjalasöfnum víðs vegar um landið, þar af um það bil helmingur í Þjóðskjalasafni Íslands.
Færslur í grunninum eru flokkaðar í sex tegundir mála, þ.e. Atvinnumál, Fjárhagsmálefni, Jarðamál, Réttarfar, Samfélagsmál og Stjórngæsla og stjórnvaldsaðgerðir. Undir hverri og einni tegund eru tiltekin efnisorð sem nýtt eru til að auðkenna viðkomandi færslur með ítarlegri hætti. Hvort tveggja er hægt að þrengja leit í grunninum við tegund máls og/eða efnisorð.
Frekari leitarmöguleikar snúa að sýslum, hreppum, bæjum, heitum svæða, málsaðilum og þinghaldsstöðum. Einnig er hægt að leita í inntaki máls, það er þeim texta sem skrásetjarar hafa slegið inn um viðkomandi færslur. Loks er mögulegt að fletta í gegnum eina og eina bók og efnisskráningu hennar. Nær allar bækur hafa verið myndaðar og eru stafræn afrit af frumritum bóka hengd við hverja og eina færslu. Notendur geta því ekki aðeins leitað að efni í grunninum heldur á sama tíma skoðað afrit af frumskjölunum.